Ég gef kost á mér til að gegna áfram embætti formanns Félags grunnskólakennara, en ég var kjörin formaður árið 2018. Í hönd fara tímar þar sem mikilvægt er að standa vörð um hagsmunamál kennara auk þess að fylgja eftir þeim breytingum og framþróun sem felst í nýjum kjarasamningi.

Ég hef í viðræðum við sveitarfélögin lagt áherslu á að bæta starfskjör og starfsskilyrði kennara og náms- og starfsráðgjafa, að auka sveigjanleika í samræmi við nútímaleg starfsskilyrði og kröfur í starfi sérfræðinga.
Mér er mikið í mun að félagið okkar verði lýðræðislegra og virkara og hvet því allt félagsfólk til að taka þátt í formannskjöri. Ég vil vinna með ykkur að breytingu á Félagi grunnskólakennara í átt til betri samvinnu allra og meiri áhrifa félagsmanna.

Kosningarnar skipta máli. Það er ekki léttvægt hver ber ábyrgð á því að semja um kaup og kjör grunnskólakennara á næstu árum. Aðilinn sem við treystum til þess þarf að hafa góða þekkingu á öllum samningum kennara ásamt því að hafa skilning á því hvernig hinar ýmsu greinar hans tengjast innbyrðis því lítil breyting getur haft keðjuverkandi áhrif. Fyrst og fremst þarf sá aðili þó að hafa bein í nefinu og standa fast á því að kennarar muni aldrei nokkurn tímann selja áunni réttindi frá sér.

Ég hef verið formaður FG í fjögur ár og er gríðarlega stolt af þeim árangri sem ég og sterk og samhent stjórn félagsins höfum náð ásamt ótrúlega þrautseigri samninganefnd þess.

Kosning formanns FG fer fram 2.- 7. maí 2022, rafrænt á “Mínum síðum” á ki.is.

Stefnumál

Við sem samfélag gerum miklar kröfur til kennara, við viljum kennslu í fremstu röð og á þeirri vegferð er grundvallaratriði að starfsskilyrðin vinni með okkur að settu marki. Þannig verða einnig styrktar þær stoðir sem stuðla að því að kennarastarfið verði eftirsóknarvert og aðlaðandi ævistarf fyrir okkar bestu sérfræðinga.

Fái ég til þess áframhaldandi umboð mun ég, hér eftir sem hingað til, leggja mig alla fram um að vera ötull talsmaður kennara og skólastarfs í samvinnu og samstarfi við hagaðila, ríki og sveitarfélög. Það eru forréttindi að fá að vinna með svo öflugum hópi kjörinna fulltrúa í félagsstarfinu, á sviði skóla- og kjaramála. Ég er full tilhlökkunar að leiða þennan hóp áfram í mikilvægum störfum fyrir grunnskólakennara verði mér treyst fyrir keflinu áfram.

Við þurfum að móta framtíðarsýn fyrir kennarastarfið, sem snýst ekki eingöngu um kaup og kjör heldur það hvernig við gerum starfið meira aðlaðandi og spennandi, hvernig við hugum að endurmenntum og framförum í starfi, hvernig við aukum starfsánægju, jafnvægi milli einkalífs og vinnu, fjölbreytni og valkostum þeirra sem vilja breyta til í starfi og þannig mætti áfram telja. Ef það er raunverulegt markmið stjórnvalda að skapa menntakerfi í fremstu röð á heimsvísu þar sem framtíðar kynslóðir eiga kost á því að auka hæfni sína, þekkingu og valkosti um störf – þá verður það ekki gert án öflugra kennara sem eru ánægðir og fá að þróast í starfi sínu. Þetta er meðal þeirra verkefna sem eru framundan.

Helstu baráttumál og málefni

Kjarasamningar og eftirfylgni þeirra
Félag grunnskólakennara hefur undirritað þrjá kjarasamninga á liðnum árum, árin 2018, 2020 og 2022. Hver samningur hefur falið í sér framfarir á starfsskilyrðum og kjörum kennara, og þá má sérstaklega nefna þann samning sem undirritaður var á þessu ári. Kjarasamningar fjalla ekki bara um kaup og kjör heldur innihalda þeir réttindakafla sem þarf að gæta og hlúa að. Túlkun kjarasamninga er í höndum þeirra sem gera samninga en framkvæmd í höndum launagreiðenda og skólastjóra. Það er því mikilvægt að styrkja trúnaðarmannanet félagsins um allt land og passa upp á að einhliða túlkun launagreiðenda sé ekki sú túlkun sem festist í sessi.

Í stað þess að gera könnun meðal kennara við undirbúning kjarasamninga ákveð ég, ásamt öðrum úr stjórn FG, að eiga samtal við kennara. Við héldum því opna fundi með kennurum um allt land þar sem farið var yfir stöðuna og málin rædd. Niðurstöðum þessara funda var svo skilað til úrvinnslu til svæðastjórna sem svo ásamt trúnaðarmönnum sínum, skiluðu stjórn og samninganefnd sínum niðurstöðum. Að því loknu fundaði stjórn og samninganefnd og vann drög að kröfugerð sem síðan var aftur send til svæðastjórna og trúnaðarmanna til samþykktar. Þar var lagður grunnur að nýjum samningum en um leið að nýju verklagi við gerð framtíðar samninga þar sem kennarar geta átt aukna aðkomu að gerð þeirra.

Öflugra félag
Þau tíu svæðafélög sem starfa innan Félags grunnskólakennara eru mikilvæg þegar kemur að stefnumótun og starfsemi félagsins. Félögin hafa einnig mikilvægu hlutverki að gegna í sínu nærsamfélagi og með öflugu starfi má auka félagslega og faglega virkni félagsfólks. Það er styrkur fyrir félaga að tilheyra samfélagi kennara bæði svæðisbundið og á landsvísu.
Undir minni forystu hefur FG aukið fjármagn til svæðafélaganna og styrkt starf þeirra þannig bæði fjárhagslega og faglega til að treysta í sessi mikilvægi þeirra. Það eru til staðar tækifæri til að efla svæðafélögin enn betur og gera þannig starfsemi FG enn öflugri.
Stjórn FG hefur einnig lagt áherslu á að mennta trúnaðarmenn og hefur hug á að fylgja því enn betur eftir með bæði námskeiðum og eftirfylgni. Ráðning lögmanns FG er hluti af þessari vegferð og hefur það sýnst sig nú þegar hversu mikilvægt skref það var að ráða til starfa lögmann sem sinnir eingöngu félagsfólki FG. Trúnaðarmenn á hverjum stað þurfa enn frekari stuðning að halda og verður það verkefni til lengri tíma að koma í framkvæmd nýgerðum kjarasamning FG og SNS, ekki bara um sveigjanlegt starfsumhverfi og staðbundin og óstaðbundin, störf heldur er það stórt verkefni framundan að stytta árlegan vinnutíma kennara í grunnskóla.

Eitt leyfisbréf
Mikilvægum áfanga var náð þegar samþykkt var með lögum frá Alþingi að eitt leyfisbréf myndi gilda um starfsréttindi grunnskólakennara. Sem formaður Félags grunnskólakennara lagði ég mikla áherslu á að gæta hagsmuna grunnskólakennara. Í því fólst meðal annars hagsmunagæsla gagnvart stjórnvöldum og ráðamönnum, enda höfðu hugmyndir sem áður höfðu komið fram í þessum málaflokki falið í sér afturför fyrir grunnskólakennara. Við náðum árangri sem við getum verið stolt af, árangri sem er til þess fallinn að gera kennslu að ævilangri vegferð þar sem kennarar geta fært sig á milli skólastiga eftir áhuga og viðbótarfærni. Í því felst mikil framför fyrir bæði kennara og nemendur, enda má vera ljóst að með bættum skilyrðum og auknum sveigjanleika líður kennurum betur í starfi sem endurspeglast í betri kennslu.

Samskipti við sveitarfélög
Grunnskólar eru reknir af sveitarfélögum landsins og í maí fara fram sveitarstjórnarkosningar. Ég hef lagt áherslu á virkt samtal við sveitarfélög og forystufólk þar í þeim tilgangi að minna á mikilvægi þess að vel sé búið að grunnskólum. Sveitarfélögin þurfa ekki bara að hafa fjárhagslega burði til að sinna rekstri grunnskóla heldur metnað til að reka öfluga og góða skóla, með menntuðum kennurum út um allt land og jöfnum tækifærum fyrir nemendur. Þessu samtali er hvergi nær lokið og það þarf áfram að leggja áherslu á virkt samtal þeirra sem gæta hagsmuna kennara og þeirra sem veita sveitarfélögum forystu.
Baráttan við heimsfaraldur (eða) Baráttan fyrir því að viðhalda skólastarfi
Síðustu tvö ár fólu í sér baráttu okkar við heimsfaraldur sem setti líf okkar allra úr skorðum. Stjórnvöld lögðu áherslu á að halda uppi virku skólastarfi en það mátti öllum vera ljóst að það myndi ekki gerast að sjálfu sér. Þá fóru í hönd samráðsfundir víða um land, fundir með svæðaformönnum, stjórn Kennarasambands Íslands, almannavörnum, menntamálaráðuneytinu og fleiri hagsmunaaðilum. Kennarar eru ein af grunnstoðum samfélagsins og í framvarðarsveit þegar kemur að því að halda samfélaginu virku. Það var því að mörgu að huga þegar ætlunin var að halda uppi skólastarfi og þar þurfti forysta Félags grunnskólakennara að gæta hagsmuna kennara í víðu samhengi. Þar sem um nýjar áskoranir var að ræða, þurfti stjórn FG að vera á tánum svo réttindi væru ekki brotin á kennurum. Mikil vinna var lögð í þessa hagsmunagæslu fyrir kennara, ekki hvað síst þegar deilt var um það hvernig greiða ætti fyrir fjarkennslu. Það var því mikið fagnaðarefni að ná staðfestingu á skilningi FG inn í samningana sem skrifað var undir í mars.

Nánar um Þorgerði Laufeyju

Ég hef starfað sem kennari í tæp 30 ár og kennt á öllum stigum grunnskólans. Áður en ég var kjörin formaður Félags grunnskólakennara gegndi ég margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hönd kennara, var formaður Kennarafélags Reykjavíkur 2005-2011, fulltrúi reykvískra kennara í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur í sjö ár og tók þátt í margvíslegri stefnumótun fyrir hönd kennara á vettvangi fræðslumála.

Ég er fædd í Reykjavík, 22. október árið 1967. Ég er fjögurra barna móðir og gift Hilmari Harðarsyni, formanni Samiðnar og FIT, félags iðn- og tæknigreina.

Ég er alin upp í Fellahverfinu og hóf grunnskólagönguna í Fellaskóla og lauk þaðan grunnskólaprófi árið 1983. Minn árgangur var sá fyrsti sem lauk tíu ára grunnskólanámi við skólann. Fellaskóli lagði grunn að menntun minni, þar kynntist ég kennurum sem mótuðu mig og kenndu mér hversu mikilvægt það er að þykja vænt um nemendur, styðja við styrkleika þeirra og hvetja til góðra verka. Fellahverfið var á þessum árum nýbyggt og kraftur og bjartsýni einkenndi íbúana. Frelsi og áhyggjuleysi æskunnar einkenndi mannlífið sem hverfðist um nýbyggðan skólann þar sem 1.600 nemendur stunduðu nám á þessum árum.

Ég bjó í Svíþjóð ásamt fjölskyldu minni á árunum 1976-1979 og kynnist af eigin raun að vera útlendingur og grunnskólanemi í öðru landi.

Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlið árið 1988 en samhliða náminu stundaði ég sundæfingar að kappi og var um árabil landsliðskona í sundi. Á menntaskólaárunum vann ég við ýmis konar störf og yfir sumarið starfaði ég lengst af hjá Skipalyftu Vestmannaeyja og sinnti þar fyrst kvenna skipamálun.

Eftir menntaskólann starfaði ég sem ritari í Útvegsbanka Íslands og kynntist flljótlega eiginmanni mínum og stofnaði fjölskyldu. Árið 1990 hóf ég nám við í Kennaraháskóla Íslands, með textíl sem aðalgrein, og í framhaldinu hóf ég störf sem kennari við Grandaskóla. Fljótlega var ég trúnaðarmaður kennara og stuttu seinna gaf ég kost á mér sem formaður Kennarafélags Reykjavíkur og varð fulltrúi kennara í Fræðsluráði Reykjavíkur. Formennskunni gegndi ég í sjö ár og kynntist vel skólastarfi í Reykjavík. Ég var í góðum tengslum við kennara á vettvangi og tel mig því þekkja vel til starfsskilyrða þeirra og kjara. Jafnframt gafst mér gott tækifæri til að vinna með Samfok, samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, að eflingu samstarfs heimilis og skóla.

Árið 2010 varð ég formaður Fimleikasambands Íslands sem er fjórða stærsta aðildarfélagið innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og var á þeim tíma eina konan í hinum fríða flokki formanna aðildarfélaga ÍSÍ. Um 75% iðkenda í Fimleikasambandinu eru konur og sambandið er annað stærsta sérsamband ÍSÍ ef miðað er við iðkendur undir 18 ára aldri.

Fimleikahreyfingin er sjálfboðaliðahreyfing og flestir koma inn í hana til að fylgja eftir hugsjónum sínum og styðja um leið við börn og unglinga. Mannauðurinn sem fimleikahreyfingin býr yfir hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis og átti sinn þátt í því að Íslandi var treyst til að halda Evrópumótið í fimleikum árið 2014.

Síðustu fjögur árin hef ég starfað í umboði félagsfólks sem formaður Félags grunnskólakennara var kosin til þeirra starfa í janúar 2018 og tók til starfa í maí 2018. Í því starfi hefur reynt á alla þá þekkingu sem ég hef orðið mér út um í störfum mínum bæði í forsvari fyrir kennara í Reykjavík, trúnaðarmaður kennara frá 2004 en ekki síður sú dýrmæta reynsla sem ég fékk sem formaður Fimleiksambands Íslands.

Ég hef fundið til mikillar ábyrgðar þar sem að formaður fer fyrir samningsumboði stéttarinnar og ber því ekki bara ábyrgð á kjörum stéttarinnar heldur líka þeirri þjónustu sem félagsmenn fá og aðstoð sem þeir leita eftir til félagsins síns.

Greinar og Viðtöl

Fréttablaðið – Góður skóli, góður vinnustaður
https://www.frettabladid.is/skodun/godur-skoli-godur-vinnustadur/

Greinasafn á visir.is
https://www.visir.is/t/1898

Viðtal á mannlíf – Alltof margir gefast upp á hverju ári
https://www.mannlif.is/vidtol/thorgerdur-segir-nemendur-og-foreldra-beita-kennara-ofbeldi-alltof-margir-gefast-upp-a-hverju-ari/

Viðtal á RÚV – Kennarar uggandi um að stór hópur sé settur í áhættu
https://www.ruv.is/frett/2022/01/25/kennarar-uggandi-um-ad-stor-hopur-se-settur-i-ahaettu

Útvarpsviðtal á RÚV – Svona er þetta
https://www.ruv.is/utvarp/spila/svona-er-thetta/30733/952v00